Fréttir

15 látnir og 55 slasaðir
Að minnsta kosti 15 manns létu lífið og 55 slösuðust í tveimur sjálfsmorðsárásum í austurhluta Bagdad í Írak í morgun. Árásin átti sér stað í hverfi sjía múslima og eins og undanfarnar sprengjur, nálægt markaði.

Öngþveiti á landsfundi Frjálslyndra
Töluvert öngþveiti ríkir á landsfundi Frjálslynda flokksins sem nú stendur yfir á Hótel Loftleiðum en um eitt þúsund manns eru á fundinum. Guðjón Arnar Kristjánsson var sjálfkjörinn í embætti formanns þar sem hann var einn í framboði. Enn er verið að kjósa í varaformannsembætti og til ritara.

Lítið af hafís fyrir utan Galtarvita
„Það er nærri allt autt hérna fyrir utan og ísspangirnar, þrjár eða fjórar, virðast að mestu komnar inn í djúp.“ sagði Jón Pétursson, skipstjóri á Þorláki ÍS í viðtali við fréttastofu Vísis í dag. Jón sagði ísspangirnar ekki hafa haft áhrif á ferðir þeirra. Þorlákur ÍS var staddur norður af Galtarvita.

Actavis undirbýr næsta yfirtökuslag
Merck hefur lýst því yfir að samheitalyfjahluti þess sé til sölu. Söluverð hefur ekki verið gefið upp en í erlendum fjölmiðlum hefur upphæðin fjórir til fimm milljarðar evra verið nefnd. Það samsvarar 360 til 450 milljörðum króna. Til samanburðar greiddi bandaríski lyfjarisinn Barr um 2,5 milljarða dala fyrir króatíska samheitalyfjafyrirtækið Pliva, sem Actavis missti af í yfirtökubaráttu í fyrrahaust. Það nemur um 175 milljörðum króna.

Ban Ki-moon í Kongó
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, er nú í sinni fyrstu heimsókn til Afríku og hóf hann ferð sína í Kongó. Ban talaði við nýkjörið þing landsins og sagði þar að Kongó gæti treyst á stuðning Sameinuðu þjóðanna við uppbyggingu landsins.

Beckham til bjargar
Beyonce, Scarlett Johansson og David Beckham eru ný andlit Disney fyrirtækisins í herferð þess „Ár hinna milljón drauma.“ Stjörnurnar tóku að sér hlutverk frægra sögupersóna úr Disney sögum og ljósmyndarinn heimsfrægi, Anne Leibovitz, tók myndirnar.
Settu hvolpinn inn í ofn
Tveir bræður frá Atlanta í Bandaríkjunum sem voru sakaðir um að setja málningarlímband á lappir og trýni þriggja mánaða gamals hvolps og ofnbaka hann síðan lifandi játuðu sekt sína í gær.

Eitrað te dró Litvinenko til dauða
Breskir embættismenn hafa skýrt frá því að það hafi verið eitrað te sem hafi banað Alexander Litvinenko. Þetta kom í ljós þegar tekanna sem hafði verið í herbergi Litvinenkos var rannsökuð.

Tannheilsu Íslendinga hrakar
Tannheilsu Íslendinga hrakar mjög. Tuttugu og tvö þúsund börn fara á mis við tannlæknaþjónustu, segir tannlæknir sem gefur heilbrigðiskerfinu falleinkunn.

Ford: Versta afkoma í 103 ár
Bandaríski bílarisinn Ford tapaði tæpum 890 milljörðum króna í fyrra. Afkoma síðasta árs er sú versta í 103 ára sögu fyrirtækisins. Minnkandi spurn eftir jeppum og öðrum eldsneytisfrekum ökutækjum er ein aðalástæða tapsins, svo og harðnandi samkeppni við aðra bílaframleiðendur. Búist er við áframhaldandi taprekstri næstu 2 árin.
Ályktað gegn efasemdarmönnum
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gærkvöldi ályktun þess efnis að þeir sem afneiti Helför gyðinga verði fordæmdir. Bandaríkjamenn lögðu fram drög að ályktuninni. Hún er sögð svar við ráðstefnu í Íran fyrir áramót þar sem dregið var í efa að Helförin hefði átt sér stað. Það voru rúmlega hundrað þjóðir sem studdu ályktunina.

Taka harðar á Írönum
George Bush Bandaríkjaforseti hefur gefið hersveitum sínum í Írak heimild til að taka útsendara írönsku klerkastjórnarinnar í landinu fastari tökum en áður. Íranskir flugumenn eru grunaðir um að þjálfa herflokka sjía sem berjast gegn hernámsliðinu en fram til þessa hefur þeim yfirleitt verið sleppt eftir nokkurra daga varðhald.

16 fallið á Gaza
Að minnsta kosti 16 hafa týnt lífi og fjölmargir særst í átökum milli Hamas og Fatah-liða á Gaza-svæðinu síðasta sólahring. Meðal látinna er tveggja ára drengur. Þetta eru einhver verstu átök sem blossað hafa upp milli fylkinganna í marga mánuði.

Fornleifafræðingar hafna stefnu ríkisins
Bæði fagfélög fornleifafræðinga hafna alfarið stefnumörkun stjórnvalda í fornleifavernd eins og hún birtist í stefnudrögum. Félögin segja að í stefnunni birtist það sjónarmið að fornleifauppgreftir séu eyðilegging og því eigi að fækka þeim til muna.

Baugsmálið kostað sakborninga yfir milljarð
Hreinn kostnaður sakborninga í Baugsmálinu er kominn á annan milljarð króna, að sögn Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs. Hann segir engar horfur á sameiningu Skjás eins og 365 en viðræður um það hefðu þó áttu sér stað milli fyrirtækjanna.

Kosið um varaformann í dag
Kosið verður um varaformann Frjálslynda flokksins í dag á landsþingi flokksins. Tveir bjóða sig fram í embætti varaformanns, þau Margrét Sverrisdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson.

Flutningavél Icelandair í erfiðleikum
Flutningaflugvél Icelandair varð að lenda á Egilsstaðaflugvelli í morgun vegna gruns um eld í flutningarými vélarinnar. Viðvörunarljós gáfu það til kynna en eftir að vélin lenti kom í ljós að enginn eldur var í henni. Mikill viðbúnaður var á flugvellinum vegna atviksins.

Hafís nálgast Bolungarvík
Hafís er nú farinn að nálgast Bolungarvík. Ísaröndin er næstum komin þvert yfir Ísafjarðardjúp. Hún liggur samsíða Stigahlíð og nánast að Grænuhlíð. Hafísinn virðist vera rúmar tvær sjómílur fyrir utan Bolungarvík.
Laufey með tónleika í dag
Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari stendur fyrir tónleikum með tilstyrk Reykjavíkurborgar á Kjarvalsstöðum klukkan sextán í dag, á opinberum fæðingardegi Mozarts. Laufey hefur um árabil staðið fyrir tónleikum á þessum degi. Ranglega var sagt í Fréttablaðinu í dag að tónleikarnir væru á morgun.

Google viðurkennir mistök
Stofnendur Google viðurkenndu í gær að ákvörðun þeirra um að verða við beiðni kínverskra stjórnvalda að efnisstýra leitarvél sinni í Kína hefði verið röng. Sögðu þeir það vera þar sem ákvörðunin hefði skaða orðspor fyrirtækisins í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Opið í Hlíðarfjalli í dag
Skíðasvæðið við Hlíðarfjall opnar núna klukkan tíu og verður opið til klukkan fimm í dag. Þar er harðpakkaður snjór í brautunum og flestar lyftur í gangi, sem og göngubraut. Tveggja stiga hiti var á svæðinu í morgun og átta til tólf metrar á sekúndu.

Ákeyrsla á Ísafirði í nótt
Bílhurð var opnuð á gangandi vegafaranda á Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði í nótt. Ökumaður bílsins opnaði hurðina þegar hann ók framhjá sextán ára pilti sem var þar á göngu. Pilturinn gat gefið lýsingu á bílnum og þegar lögregla hafði upp á ökumanninum kom í ljós að það sá á bílnum. Ekki er vitað hvað manninum gekk til en lögregla rannsakar málið.

Esso við Hringbraut opnar í dag
Bensínlítrinn verður seldur á 99 krónur milli tíu og fjögur í dag á nýrri bensínstöð ESSÓ við Hringbraut sem opnaði núna klukkan tíu. Stöðin verður opin allan sólarhringinn, árið um kring. Þar verður nóg að bíta og brenna veitingastaðirnir Subway og Serrano eru með veitingasölu auk Kaffitárs.

Breska lögreglan vill fá Lúgóvoj
Líklegt er talið að breska lögreglan krefjist þess að Rússar framselji Andrei Lúgóvoj, fyrrverandi njósnara KGB, vegna morðsins á starfsbróður sínum, Alexander Litvinenko. Eitrað var fyrir honum með geislavirku efni. Breska dagblaðið Guardian fullyrti þetta í gær.

Fordæma þá sem afneita Helförinni
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gærkvöldi ályktun þess efnis að þeir sem afneiti Helför gyðinga verði fordæmdir. Bandaríkjamenn lögðu fram drög að ályktuninni og er hún sögð svar við ráðstefnu í Íran fyrir áramót þar sem dregið var í efa að Helförin hefði átt sér stað.

Tólf teknir fyrir of hraðan akstur
Tólf ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut í nótt en þar er hámarkshraði níutíu kílómetrar á klukkustund. Sá sem ók hraðast af þeim var á 134 kílómetra hraða. Í gærdag var annar tekinn á 199 kílómetrahraða á brautinni og var sá sviptur ökuréttindum á staðnum.

Eldur í fiskimjölsverksmiðju
Eldur kviknaði í fiskimjölsverksmiðju Faxamjöls rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi. Þegar slökkvilið höfuðborgarsvæðisins kom á staðinn var eldur í mjölþurrkunarvél og mikill reykur var í húsinu. Vel gekk að slökkva eldinn og var slökkvistarfi og reykræstun lokið rétt eftir klukkan þrjú í nótt.

Kleinuhringur með koffíni
Vísindamanni í Bandaríkjunum hefur tekist að koma koffíni í kleinuhring. Ætla að margir kjósi slíka kræsingum á morgnana í náinni framtíð. Það var veirusérfræðinginum Robert Bohannon sem tókst þetta, en hann lét ekki þar við sitja og kom koffíni líka í kökukrem og annað góðmeti.

Kona handleggsbrotin í miðbænum
Ung kona var handleggsbrotin í líkamsárásárás á horni Hverfisgötu og Ingólfsstrætis í Reykjavík klukkan hálf sjö í morgun. Að öðru leyti var frekar rólegt í miðbænum að sögn lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Tveir voru teknir með lítið magn fíkniefna og fimm voru teknir fyrir ölvun við akstur.

Mannskæð átök á Gaza
Að minnsta kosti þrettán týndu lífi og fjölmargir særðust í átökum milli Hamas og Fatah-liða á Gaza-svæðinu síðasta sólahring. Átökin eru þau verstu milli þessara hópa í marga mánuði. Meðal látinna var tveggja ára drengur.