Deigur krókur á móti bragði
Frá því var greint í gærkvöldi að Sigrún Magnúsdóttir, settur forsætisráðherra, hafi friðað í heild sinni hafnargarð sem þverar lóðina að Austurbakka 2 í Reykjavík. Frá því hefur jafnframt verið greint að komi til friðunar muni lóðahafar höfða skaðabótamál á hendur ríkinu sem nemur 2,2 milljörðum króna.

Ráðuneytið einfaldlega of seint á ferð með bréfið
„Þegar kom í ljós að þessi hafnargarður var ekki meira en hundrað ára heldur yngri, frá 1928, þá lagði minjastofnun til skyndifriðun og þá hefur viðkomandi ráðherra sex vikur til að segja af eða á. Og sá tími leið án þess að ráðherra tæki afstöðu til þess. Daginn eftir barst hins vegar bréf um að ráðuneytið hefði viljað friða garðinn en það var einfaldlega of seint,“ sagði Dagur í samtali við Höskuld Kára Schram fréttamann nú í morgun.

„Okkur sýnist það svona í fljótu bragi, já,“ segir borgarstjóri.
Friðunin markleysa að mati lögmanns
Höskuldur ræddi jafnframt við Óskar Sigurðsson sem er lögmaður framkvæmdaaðila á svæðinu: Landsstólpar-þróunarfélag og innti þá eftir afstöðu nú þegar fyrir lægi að ráðherra vildi friða garðinn.
„Afstaða minna umbjóðenda er sú að þessi ákvörðun kom á óvart. Og jafnframt liggur fyrir að þessi ákvörðun er ekki tekin í samræmi við fyrirmæli laga um menningarminjar, ekki innan þess frests er samkvæmt lögunum. Fresturinn er runninn út og ákvörðun sem ráðherra hefur tekið er í sjálfu sér markleysa.“

Óskar segist gera ráð fyrir að framkvæmdir haldi áfram næstu viku. Nú þegar hefur orðið verulegt tjón vegna tafa og hefur verið gerð grein fyrir því tjóni í bréfum til ráðuneytisins. „Tjónið er þegar orðið mjög mikið. Og lögin gera hreinlega ráð fyrir því að svona tjón skuli bætt og ef ekki næst samkomulag um bætur fer það eftir reglum um eignarnámsbætur. Og því verður væntanlega fylgt eftir.“
Lögmaðurinn segir að um verulegar fjárhæðir sé að ræða, sem hleypur á hundruðum milljóna og ef friðunin eigi að standa þá hlaupi skaðabótakrafa á mörgum milljörðum. Hann segir að komi til þess sé það ákvörðun ráðherra og ríkissjóður þannig skaðabótaskyldur.