Innlent

Krakar í skólann án kennara

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins, segir að grunnskólabörn ættu að geta gengið í skóla þrátt fyrir verkfall kennara. Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir orð Ara ætluð til að verja láglaunastefnu sem sé Samtökunum í hag. Ari segir Samtökin telja algerlega heimilt að fólk sem starfi í skólum og sé ekki í verkfalli sinni þeim áfram þrátt fyrir verkfall. "Einnig væri löglegt að lána skólahúsnæði til þeirra sem hefðu ofan af fyrir börnunum ef þeir gengu ekki inn á störf kennara. Út frá vinnurétti væri það heimilt, hvað þá að fyrirtæki skipuleggi sig í kringum þau vandamál sem skapast vegna verkfallsins." Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir ekki vert að svara orðum Ara. "Orð hans eru út úr öllum kortum. Ég skil ekki af hverju fyrirtæki á almennum markaði og Samtök atvinnulífisins eru að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að samningar náist. Nema að sá grunur sem læddist að mér í fyrradag sé réttur; að þeir óttist að láglaunastefna þeirra verði brotin á bak aftur," segir Eiríkur. "Þeir hafa markað ákveðna láglaunastefnu sem hefur leitt það af sér að kaupmáttur fólks er að falla. Það er í þeirra hag að sú láglaunastefna festist í sessi og Ari Edwald er í forystu um að verja þann hag."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×