Innlent

Launin hafa hækkað um 20%

Grunnskólakennarar eru með að meðaltali tvö hundruð og fimmtíu þúsund krónur á mánuði í laun með yfirvinnu. Heildarlaunin hafa hækkað um tæp tuttugu prósent á síðustu þremur árum en hafa þó ekki hækkað jafn mikið og laun framhaldsskólakennara. Í síðustu samningum, árið 2000, sömdu grunnskólakennarar um verulega hækkun á grunnlaunum. Þá fóru dagvinnulaun kennara úr 132 þúsundum og voru komin upp í 215 þúsund í fyrra, sem er hækkun um 63%. Þetta segir hins vegar ekki alla söguna því heildarlaunin, eða launin með yfirvinnu, voru áður 210 þúsund en voru í fyrra komin upp í 250 þúsund, sem er hækkun um 19%. Á sama tíma hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 18%. Þetta er unnið upp úr gögnum kjararannsóknarnefndar fyrir grunnskólakennara í Reykjavík sem eru talin endurspegla meðaltalið í landinu. Grunnskólakennarar vísa gjarnan í að laun framhaldskólakennara séu mun hærri. Við skulum skoða þær tölur. Meðan grunnskólakennari var með 215 þúsund í dagvinnulaun í fyrra var framhaldsskólakennari með 231 þúsund. Munurinn er 7%. En þegar litið er á heildarlaunin er munurinn talsvert meiri. Grunnskólakennari var með með 250 þúsund en framhaldsskólakennari 335 þúsund. Munurinn er 34%. Fyrir samningana árið 2000 var þessi munur minni. Heildarlaun framhaldsskólakennara voru þá aðeins 5% hærri en grunnskólakennara og dagvinnulaunin nánast þau sömu. Kennsluskylda hefur haldist óbreytt þennan tíma, er 28 tímar hjá grunnskólakennurum en 24 hjá framhaldsskólakennurum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×