Innlent

KSNV harmar ummæli Einars Odds

Kennarasamband Norðurland vestra, KSNV, harmar óheppileg ummæli þingmanns kjördæmisins, Einars Odds Kristjánssonar, í fjölmiðlum þar sem hann segir kennara vera að brjóta niður stefnu þjóðarinnar með kjarabaráttu sinni, eins og segir í ályktun sambandsins sem send var fjölmiðlum í dag.   Einar Oddur, sem er varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir að löggjafinn verði að koma sveitarstjórnum til hjálpar með því að lögfesta tilboð sem sveitarstjórnir lögðu fyrir kennara í vor, sem hann telur ríflega kjarabót handa kennurum. Í ályktun aðalfundar KSNV, sem var haldinn á Bakkaflöt í Skagafirði í dag, segir að sú tillaga nái þó hvergi nærri að tryggja grunnskólakennurum sambærileg laun á við viðmiðunarstéttir, svo sem framhaldsskólakennara. Aðalfundurinn telur þetta kaldar kveðjur „frá þingmanninum á sólarströndinni (á Möltu) sem fær sínar kjarabætur reglulega frá kjaradómi, baráttulaust! Löggjafanum væri nær að tryggja sveitarfélögunum þá fjármuni sem til þarf til að þau geti staðið undir lögbundnu skólastarfi og mannsæmandi launum grunnskólakennara.“ Aðalfundurinn lýsir, í beinu framhaldi af þessu, yfir fullum stuðningi við samninganefnd Félags grunnskólakennara í samningaviðræðunum við sveitarfélögin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×