Innlent

Nota sér neyðarástand fatlaðra

Neyðarástand hjá fjölskyldum fatlaðra barna er notað sem vopn í kjarabaráttu kennara. Þetta segir formaður Þroskahjálpar sem einnig spyr hvers vegna undanþágunefnd, sem ekki veitir undanþágur, starfi yfirleitt.  Fulltrúi kennara í nefndinni hafnaði öllum beiðnum sem bárust vegna kennslu fatlaðra barna. Halldór Gunnarsson, formaður Þroskahjálpar, segist skilja baráttu kennara vel en sama hve málstaðurinn sé góður þá hljóti að vera takmörk fyrir því hvaða meðulum megi beita. Honum finnst ekki ná nokkuri átt að beita fyrir sig neyðarástandi hjá fjölskyldum fatlaðra barna til að ná fram markmiðum sínum. Halldór áætlar að fjöldi íslenskra barna sem eigi við einhvers konar fötlun að stríða sé á milli þrjú og fjögur hundruð. Aðstæður foreldra þessara barna sé í mörgum tilfellum mun erfiðari en hjá þeim sem eiga heilbrigð börn. Niðurstaða undanþágunefndar sé því með öllu óskiljanleg. „Maður spyr sig hvers vegna undanþágunefnd sé að störfum yfirleitt fyrst þetta er ríkjandi viðhorf, Nefndin hlýtur að vera til staðar vegna þess að það er eitthvað sem kallar á að undanþága sé veitt,“ segir Halldór sem telur að kennarar almennt séu óhressir með niðurstöðuna.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×