Skoðun

Þrískipting valdsins

Jakob Frímann Magnússon skrifar
Þrískipting valdsins - Jakob Frímann Magnússon



Umræðan um hæstarétt hefur að undanförnu snúist um einn mann, Jón Steinar Gunnlaugsson, sem nú hefur verið skipaður hæstaréttardómari af félögum sínum úr Flokknum. Jón Steinar er skemmtilegur maður og skal hér óskað velfarnaðar í starfi sínu. Umræðan um hæstarétt gæti framvegis snúist um annan mann, hinn eina sem enn gegnir starfi hæstaréttardómara án þess að hafa verið skipaður af Flokknum.

Þegar því hefur verið kippt í liðinn, liggur beinast við að hefja gagngera endurskoðun á stjórnarskránni, fyrst og fremst þó með afnámi 26. greinarinnar sem færir forseta íslenska lýðveldisins vald til að synja lögum staðfestingar. Slík fyrirstaða er með öllu óþolandi eins og hæstvirtur forseti alþingis benti svo smekklega á í setningarræðu sl. föstudag. Franski stjórnspekingurinn Montesque var að líkindum ekki með réttu ráði er hann hélt því fram fyrir löngu, að til tryggingar lýðræðinu þyrfti valdið óhjákvæmilega að finna fyrir aðhaldi frá öðru valdi. Og þar sem stjórnarskráin verður á annað borð tekin til löngu tímabærrar endurskoðunar, færi best á því að færa 2. grein hennar sömuleiðis nær raunveruleikanum. Þar er að finna gamaldags fyrirmæli á borð við það sem Montesque boðaði, sumsé að löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald beri að aðgreina.

Þrískipting valdsins er alger tímaskekkja á Íslandi, reyndar álíka sýnileg og nýju fötin keisarans í ævintýri H.C. Andersen. Framkvæmdavaldið, þ.e. ráðherrar stjórnarráðsins, eru auðvitað beintengdur og óaðskiljanlegur hluti löggjafarvaldsins, alþingis. Öllu stýrt af sama Flokknum, sama Flokki og tilnefnt hefur, með einni undantekningu, alla dómara þriðja valdsins, dómsvaldsins, sem við nefnum hæstarétt Íslands. Þessar lagfæringar á stjórnarskránni verða vafalítið til þess fallnar, að mati Flokksins, að færa okkur nær heilbrigðara og nútímalegra lýðræðissamfélagi, þar sem gulltryggt er að Réttu mennirnir hafa vit fyrir villuráfandi sauðum annars flokks Íslendinga.




Skoðun

Sjá meira


×