Framlög halda uppi flokksstarfinu

Allir sem eru í bæjarráði, bæjarstjórn eða nefndastörfum á vegum Framsóknarflokksins í Garðabæ og Mosfellsbæ láta hluta af launum sínum renna til flokksfélagsins í bænum og svo hefur verið lengi. Þröstur Karlsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ, segir að þetta fyrirkomulag hafi verið tekið upp 1994. Fólki gefist alltaf kostur á að neita að greiða tíundina en hingað til hafi enginn notfært sér þann rétt. Einar Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Garðabæ, segir að framlagið standi undir rekstri flokksstarfsins í bænum. "Þetta er ekki umdeilt. Menn skilja að þetta er mikilvægt fyrir heildina. Í pólitík eru fæstir að hugsa um eigin vasa. Menn eru í góðum störfum fyrir bæjarfélagið og vilja að flokksfélagið líði ekki peningalegan skort. Allt stjórnmálastarf þarf að hafa tekjur og tómt mál að tala um það ef félögin eru peningalega svelt."