
Innlent
Nefnd skoðar ásakanir á Impregilo
Sérstakri nefnd ráðuneytisstjóra verður falið að rannsaka þær ásakanir sem hafa komið fram á verktakafyrirtækið Impreglio. Þetta var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í morgun en alls heyra umsvif fyrirtækisins hér á landi undir tíu ráðuneyti. Alvarlegar ásakanir hafa komið fram á hendur Impregilo, t.a.m. hvað varðar skattskil, launamál og aðbúnað starfsmanna. Árni Magnússon félagsmálaráðherra, sem lagði málið fyrir á ríkisstjórnarfundinum í morgun, segir að óskað hafi verið eftir því að ráðuneytisstjórarnir komi saman sem fyrst til að fara yfir málið. Hann á jafnvel von á því að það verði í þessari viku. Málið verður hins vegar ekki leyst á einum fundi að sögn ráðherrans en hann segir eitthvað í því eiga við rök að styðjast, annað ekki. Mörgum er í fersku minni þegar formaður Framsóknarflokksins þakkaði Impreglio sérstaklega fyrir að hafa boðið í verkið við Kárahnjúka og taldi það boð forsendu þess að hægt var að hefjast handa fyrr en ella. En er komið á daginn að þetta hafi verið mistök? Félagsmálaráðherra segir málið ekki snúast eingöngu um eitt fyrirtæki heldur stærstu framkvæmd Íslandssögunnar og eina stærstu framkvæmd í Evrópu. Það kunni vel að vera að eitthvað í ferlinu þurfi að bæta og þá verði það gert. Þær raddir hafa heyrst að Impregilo hafi kverkatak á stjórnvöldum þar sem allar frekari tafir á verkinu geti kallað á háa skaðabótakröfu frá eigendum álversins - að þetta valdi því að fyrirtækið fái sérstaka meðferð. Félagsmálaráðherra hafnar því að verið sé að taka á fyrirtækinu með silkihönskum heldur fái það sömu meðferð og önnur fyrirtæki. En hvort að verkið tefst eða því verði flýtt segir ráðherra það ekki koma málinu við.