Fyrsta áfanga framkvæmdarinnar við nýjan duftgarð í Sóllandi í Fossvogsdal er lokið, segir Þorgeir Adamsson, garðyrkjustjóri kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma. Landmótuninni er lokið að stórum hluta til, segir Þorgeir. Það er vonast til að kannski verði hægt að taka hluta garðsins í notkun árið 2008.
Garðurinn verður rúmlega þrír hektarar og mun rúma um 32 þúsund duftker. Þarna er gert ráð fyrir að verði til grafarsvæði langt fram á þessa öld, segir Þorgeir.
Að sögn Þorgeirs eykst hlutfall þeirra sem kjósa bálfarir sífellt. Þetta eru orðin um eða yfir 25 prósent í dag.
Það er mjög jákvætt að bálförum fjölgi því það stuðlar að betri landnýtingu og minni kostnaði við gerð kirkjugarða. Þorgeir bendir á að á höfuðborgarsvæðum nágrannalanda séu yfirleitt rúm níutíu prósent sem velja bálför.
Nýi garðurinn var hannaður af Sigríði Magnúsdóttur og Hans-Olav Andersen á teiknistofunni Tröð. Þau sigruðu samkeppni sem efnt var til um hönnun garðsins á síðasta ári. Í honum verða margir duftreitir, aðskildir með lækjum.