Skoðun

Snobblykt

Dr. Hannes Hómsteinn skrifaði athyglisverða grein um léttvín í búðum þann 8 desember. Doktorinn vill eins og margir að léttvín verði selt í búðum og þar er ég einn af þessum mörgu sem sjá ekkert af slíkum gjörningi. En Doktorinn og fleiri fylgismenn áfengis segja að léttvín og bjór séu ekki eins skaðleg og sterkt vín. Doktorinn gengur jafnvel svo langt að segja að áfengisböl hljótist ekki af neyslu bjórs eða léttvíns heldur sterkra drykkja.

Hér er mál að slá sér á lær og hlægja! Ég ásamt mjög mörgum höfum allavega afrekað að drekka á okkur óþrif af „saklausum“ bjór og mikið af fólki verður ofurölvi eftir neyslu á „fínum“ rauðvínum. Einn bjór inniheldur meira áfengismagn en einfaldur vodka í kók. Og þess ber að geta að áfengi í bjór er það sama og áfengi í vodka. Mér hefur líka fundist umræðan um þetta lykta af snobbi þ.e.a.s. fylgendur tala um að fara út í búð og ná í „sitt rauðvín“ með fondúinu eða hreindýrinu. En hvað með þá sem vilja ná í „sitt“ romm eða „sinn“ vodka með sardínunum? Hvers vegna eiga þeir að fara í ríkið til þess? Það á ekki að mismuna fólki eftir áfengissmekk og sannarelga á ekki að hlusta á fagurgala á þingi eða með doktorsnafnbót sem segja romm og koníak eitthvað meira frá djöflinum heldur en bjór og hvítvín.

Réttast væri fyrir þetta ágæta fólk að fara í hressilegt unglingapartí og skoða hvað er verið að drekka þar á bæ. Sennilega eru flestir að súpa á bjór og nokkrir búnir að skila honum aftur á stofugólfið. Lesendur mega ekki miskilja mig. Ég hef ekkert á móti bjór eða léttvíni heldur finnst mér að ef setja á áfengi í búðir skal hafa þar allt vín. Svo verða menn að hætta nota kjánarök eins og doktorinn notar í grein sinni. Það er einungis til þess fallið að rýra þennan ágæta málstað. 




Skoðun

Sjá meira


×