Sport

Seattle - Dallas í beinni

Stórskyttan Ray Allen hjá Seattle(til hægri) gantast hér við Robert Horry, leikmann San Antonio
Stórskyttan Ray Allen hjá Seattle(til hægri) gantast hér við Robert Horry, leikmann San Antonio NordicPhotos/GettyImages

Leikur Seattle Supersonics og Dallas Mavericks verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV á Digital Ísland í nótt og hefst leikurinn klukkan 3:30. Leikurinn verður svo endursýndur í fyrramálið og fram að hádegi. Bæði lið hafa verið á góðu skriði á undanförnum dögum.

Seattle burstaði Utah Jazz á útivelli síðustu nótt og Dallas mun í nótt reyna að vinna fimmta leik sinn af fimm á erfiðu útileikjaferðalagi, en liðið er með bestan árangur allra liða í Vesturdeildinni á útivelli.

Dirk Nowitzki er stigahæsti leikmaður Dallas með um 26 stig og 8,4 fráköst að meðaltali í leik, en þá hefur Jerry Stackhouse verið sjóðandi heitur í síðustu leikjum eftir að hafa verið meiddur framan af tímabili.

Ray Allen er aðalskorari Seattle Supersonics og skorar að meðaltali 24,6 stig í leik og er ein allra besta þriggja stiga skytta deildarinnar. Dallas hefur unnið 32 leiki og tapað aðeins 10 í vetur, en Seattle hefur unnið 17 og tapað 24.

Aðeins tveir aðrir leikir eru á dagskrá í NBA í nótt. Philadelphia tekur á móti Orlando og þriðji leikurinn er viðureign Miami og Phoenix Suns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×