Leikur Philadelphia 76ers og Denver Nuggets verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV á Digital Ísland í kvöld og hefst hann klukkan eitt eftir miðnætti. Þetta verður fyrsti leikur Denver á sjö leikja ferðalagi, en Philadelphia hefur tapað tveimur leikjum í röð.
Allen Iverson þarf væntanlega ekki að kynna fyrir nokkrum manni sem fylgist með NBA körfuboltanum, en hann hefur verið aðalsprauta liðsins í áratug. Iverson skorar að meðaltali 33,4 stig að meðaltali í leik og skoraði einmitt 36 stig og sigurkörfuna þegar liðin mættust í fyrri leik sínum í vetur. Þar hafði Philadelphia betur 108-104, þrátt fyrir persónulegt met Carmelo Anthony hjá Denver, sem skoraði 45 stig í leiknum fyrir Denver.
Philadelphia er með 50% vinningshlutfall og hefur unnið 30 leiki og tapað 30, en Denver hefur unnið 33 leiki og tapað 28.