Fyrrum samherjarnir hjá Los Angeles Lakers, þeir Shaquille O´Neal og Kobe Bryant, höfðu góða ástæðu til að fagna í gærmorgun þegar þeir eignuðust báðir dætur með aðeins 6 mínútna millibili. Þeir félagar sættust í vetur eftir að hafa ekki talast við í meira en eitt ár, þar sem þeir tókust á í fjölmiðlum og kölluðu hver annan öllum illum nöfnum.
Kobe Bryant átti einhvern besta leik sinn á ferlinum í fyrrinótt þegar hann tryggði LA Lakers sigur á Phoenix með sigurkörfu á lokasekúndunni, en eftir það brunaði hann beint á fæðingardeildina og tók á móti öðru barni sínu. "Þetta var stórkostlegur endir á ótrúlegum degi í lífi mínu," sagði Bryant ánægður.
Hlutirnir hafa ekki gengið jafn vel hjá Shaquille O´Neal í úrslitakeppninni, en hann getur þó huggað sig við að hafa tekið á móti þriðju dóttur sinni og sínu sjötta barni á nánast sama tíma og félagi hans Bryant. Þess má að lokum geta að mæðrum og börnum heilsast vel.