James Dolan, stjórnarformaður New York Knicks, hefur gefið Isiah Thomas, þjálfara og framkvæmdastjóra liðsins, eitt ár til að rétta hlut liðsins. Ef það tekst ekki, verður hann látinn taka pokann sinn líkt og Larry Brown á dögunum. Árangur New York í vetur var einn sá slakasti frá upphafi og nú hefur Thomas verið gert að reyna að fá eitthvað út úr þeim misjafna mannskap sem hann hefur verið að safna til liðsins síðan hann tók við framkvæmdastjórastöðu þar á sínum tíma.
