Samið við eldri borgara

Lífeyrisgreiðslur til eldri borgara frá Tryggingastofnun ríkisins hækka og bótakerfið verður einfaldað með fækkun og sameiningu bótaflokka, samkvæmt samkomulagi sem Landsamband eldri borgara og ríkisstjórnin skrifuðu undir í dag. Þá munu bætur lækka minna vegna tekna maka og annarra tekna bótaþega en nú er. Samkomulagið var undirritað af forsætisráðherra, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra og landbúnaðarráðherra og fulltrúum eldri borgara í Ráðherrabústaðnum í dag. Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu segir að tekið verði upp frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega og vasapeningar hækkaðir. Þá verði starfslok sveigjanleg, þannig að lífeyrisgreiðslur hækki við frestun á töku lífeyris. Heimaþjónusta verði stóraukin og áhersla færð frá stofnanaþjónustu. Þá mun fjármagn sem nú gengur til reksturs stofnana úr Framkvæmdasjóði aldraðra ganga til uppbyggingar öldrunarstofnana.