Börn sem leggja önnur börn í einelti eru líklegri til að lenda á glapstigu. Þetta segir Þorlákur H. Helgason sem vinnur að svokölluðu Olweusar-verkefni hjá Kennaraháskóla Íslands. Rannsókn sem unnin var í efsta bekk grunnskóla í Stokkhólmi sýnir að börn og unglingar sem leggja aðra í einelti eru margfalt líklegri til að fremja afbrot. Einnig eru þau líklegri til að reykja daglega, neyta eiturlyfja og drekka.
Þorlákur segir gríðarlega mikilvægt að grípa fljótt inn í þegar um einelti sé að ræða. Olweusarverkefnið hafi gagnast gríðarlega vel til þess, bæði hér á landi og erlendis. Helmingur grunnskóla landsins er í Olweusarverkefninu hér á landi. Þeir hafa allir sýnt miklar framfarir og einelti hefur minnkað innan veggja þeirra.
Þorlákur bendir á að ekki sé nóg að beina sjónum að skólunum eða foreldrunum eða neinum einum hópi. Allir þurfi að taka höndum saman til að vernda þolendur og gerendur fyrir eineltisfyrirbrigðinu.