Körfubolti

Snæfell skellti Íslandsmeisturunum

Magni Hafsteinsson stóð undir nafni í Hólminum í kvöld og var hreint magnaður.
Magni Hafsteinsson stóð undir nafni í Hólminum í kvöld og var hreint magnaður.

Njarðvíkingar töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu þegar þeir heimsóttu Snæfell í kvöld. Heimamenn unnu fyllilega verðskuldaðan 88-70 sigur og komust þar með upp fyrir Njarðvík í efsta sæti deildarinnar. Keflavík er komið upp í þriðja sæti eftir stóran sigur á ÍR í kvöld, 95-72.

Það var fyrst og fremst gríðarlega öflugur varnarleikur sem lagði grunninn að sigri Snæfells en leikmenn liðsins héldu Íslandsmeisturunum í aðeins 27 stigum í fyrri hálfleik á meðan þeir skoruðu sjálfir 44 stig. Forskotið varð mest 24 stig í síðari hálfleik en þegar uppi var staðið var 18 stiga sigur staðreynd.

Magni Hafsteinssonar átti frábæran leik í kvöld og skoraði 30 stig en Jón Ólafur Jónsson og Sigurður Þorvaldsson skoruðu 14 stig hvor. Hjá Njarðvík var Jeb Ivey sá eini sem spilaði af eðlilegri getu en hann skoraði 19 stig.

Keflavík sýndi sitt rétta andlit í síðari hálfleik gegn ÍR á heimavelli sínum í kvöld. Eftir að hafa leitt í hálfleik, 46-39, fór sóknarleikur liðsins að ganga betur í þeim síðari og áttu ÍR-ingar þá engin svör. Lokatölur urðu 95-72, eins og áður segir.

Tim Ellis var atkvæðamestur Keflvíkinga með 31 stig en Thomas Soltau skoraði 13 stig. Hjá ÍR var Fannar Helgason stigahæstur með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×