Erlent

Í mun meiri hættu

Sífellt eldra fólk reynir að klífa hæsta fjall veraldar, Mount Everest.
Sífellt eldra fólk reynir að klífa hæsta fjall veraldar, Mount Everest.

Fólk sem er 60 ára og eldra er þrisvar sinnum líklegra til að deyja við að reyna að klífa Everest-tind heldur en yngra fólk. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem vísindamenn við Washington-háskóla unnu.

Rannsökuðu þeir 2211 fjallgöngumenn frá árinu 1953, þegar byrjað var að klífa fjallið, til ársins 2006. Alls hafa 85 manns yfir sextugu reynt að komast á tindinn. Fjórir þeirra hafa dáið og aðeins tólf hafa komist alla leið. Dánartíðnin er 4,7% í þessum aldurshópi, sem er töluvert hærri tíðni en hjá yngri fjallgöngumönnum. Segja vísindamennirnir niðurstöðu rannsóknarinnar afar mikilvæga því sífellt fleiri yfir sextugu reyni að klífa Everest.

Í maí síðastliðnum varð 71 árs gamall japanskur maður elsta manneskjan til að sigrast á tindinum. Sú yngsta er aftur á móti fimmtán ára sherpa-stúlka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×