Þó svo að nærri tvö ár séu í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum eru fjölmiðlar vestra farnir að spá sögulegri baráttu. Barack Obama, þingmaður demókrata, tilkynnti um framboð sitt á þriðjudaginn var og talið er að hann eigi eftir að berjast um tilnefningu flokksins við Hillary Clinton, eiginkonu Bills Clinton, fyrrum forseta Bandaríkjanna.
Stjórnmálaskýrendur segja að bardaginn á milli þeirra verði athyglisverður þar sem Obama gæti orðið fyrsti svarti forsetinn í sögu Bandaríkjanna og Hillary fyrsti kvenforsetinn. Gagnrýnendur Obama benda gjarnan á reynsluleysi hans en hann hefur aðeins verið á þingi í tvö ár. Hillary hefur hins vegar verið viðriðin stjórnmál töluvert lengur.