Phoenix Suns varð í nótt aðeins áttunda liðið í sögu NBA deildarinnar til að ná tveimur 13 leikja sigurhrinum á sama keppnistímabilinu, en áður hafði liðið unnið 15 leiki í röð frá 20. nóvember til 19. desember.
Það vekur athygli að aðeins tvö af hinum liðunum sjö sem hafa unnið þrettán í röð tvisvar á tímabili hafa ekki náð að verða NBA meistarar. Þetta voru lið Washington Capitols árið 1947 og lið Utah Jazz árið 1997.
Annað kvöld fer Phoenix á fimm leikja keppnisferðalag og mætir þar fyrst liðinu sem stöðvaði 15 leikja sigurgöngu þess í desember - Washington Wizards.
Verður sagan á bandi Phoenix?
