Erlent

Róbótar finna sennilega ekki líf á Mars

Gettyimages

Ef það er líf á Mars, er það sennilega of langt undir yfirborði plánetunnar til að vélmenni geti fundið það og greint. Þetta er niðurstaða sérfræðinga á vegum Evrópsku geimferðastofnunarinnar. Ástæðan er sú að hafi nokkurn tímann verið líf á borð við einfrumunga eða bakteríur á Mars þá hefur geimgeislun fyrir löngu eytt um það öllum ummerkjum.

Fyrir milljörðum ára má vel hugsa sér að Mars hafi að furðu mörgu leyti verið svipuð því sem jörðin er núna. Þegar kólnaði hvarf síðan lofthjúpurinn og Mars varð hin þurra, kalda og lífvana pláneta sem við þekkjum núna. Þetta segir geimlíffræðingurinn Lewis Dartnell. Ef eitthvað líf sem líkist því sem er á jörðinni hefði lifað slíkar breytingar á aðstæðum af þá eru það bakteríur sem lifa undir yfirborðinu, liggja þar í dvala og bíða þess að fátíðar jarðhræringar færi vatn úr iðrum plántunnar upp á yfirborðið. Þá aftur hefðu bakteríurnar líklega drepist vegna geislunnarinnar. Samkvæmt rannsókn Dartnell mundu harðgerustu bakteríur sem finnast á Jörðinni lifa að hámarki í 18 þúsund ár við slíkar aðstæður.

Jafnvel á tveggja metra dýpi, sem er það dýpsta sem róbóti sem áætlað er að senda til Mars árið 2013 getur borað, gætu slíkar bakteríur í mesta lagi lifað í 90-500 þúsund ár, eftir berggerð. Ef einhversstaðar eru líkur á að slíkur róbóti finni ummerki um líf þá er það í frosnum gígvötnum eða gígbörmum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×