Þrír eru í haldi lögreglu vegna gruns um ofsaakstur í morgun þar sem ökumaður keyrði í gegnum grindverk við beygju á Miklubraut. Stór hluti girðingarinnar lét undan þegar bíllinn fór yfir á annan vegahelming við Lönguhlíð. Ökumaðurinn hafði keyrt utan í annan bíl í sömu akstursátt rétt áður en hann hafnaði á grindverkinu.
Miklubraut var lokað um tíma til vesturs í kjölfarið.
Þremenningarnir eru allir rúmlega tvítugir og voru í Audi fólksbílnum sem er mikið skemmdur. Einn þeirra var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn. Hann var handtekinn síðar.
Málið er rannsakað með tilliti til ölvunar eða fíkniefnanotkunar.
Þetta er í þriðja sinn síðan veginum var breytt á þessum kafla að bíll fer í gegnum girðinguna í beygjunni.
Margoft hefur verið bent á að beygjan sé við hættumörk og er borgaryfirvöldum kunnugt um málið.