Blóðnasir ullu lokun sendiráðs

Kanadíska sendiráðinu í París var lokað tímabundið í dag vegna gruns um eitur í bréfasendingu. Starfsmaður sendiráðsins fékk blóðnasir og veiktist eftir að hann opnaði bréf. Grunsemdir vöknuðu um að eitur hafi verið í bréfinu og ákváðu yfirvöld að loka sendiráðinu og nærliggjandi götu um tíma. Hættuástandi var aflýst og sendiráðið opnað þegar lögregla komst að því að starfsmaðurinn hafði verið veikur í einhvern tíma og fengið blóðnasir. Á fréttavef CNN kemur fram að starfsfólk hafi snúið aftur til vinnu í sendiráðið, en það er staðsett í mjög virtu hverfi rétt við Champs-Elysees.