Vonir David Beckham um að vinna sér sæti í enska landsliðinu á ný dvínuðu til muna í dag þegar ljóst varð að hann verði frá keppni í mánuð vegna hnémeiðsla. Beckham meiddist í leik Real Madrid og Getafe í gær og því er ljóst að kappinn kemur ekki mikið við sögu það sem eftir er ferils hans hjá spænska liðinu fram á vorið.
Mikið hefur verið ritað um mögulega endurkomu Beckham í enska landsliðið í breskum fjölmiðlum undanfarna daga, en Beckham þykir hafa undirstrikað styrk sinn sem leikmaður með því að vinna sér sæti í liði Real á ný eftir að hafa verið settur út í kuldann.
Enska landsliðið mætir Ísrael og Andorra í þessum mánuði og hafi verið möguleiki á því að Beckham fengi tækifæri með liðinu á ný - hafa meiðsli hans nú auðveldað Steve McClaren landsliðsþjálfara þá ákvörðun til muna.