Erlent

Laug til um doktorsgráðu

Alfræðivefritið Wikipedia er í vandræðum eftir að upp komst að einn helstu höfunda þess hefur löngum logið til um nafn sitt og þóst vera með doktorsgráðu, sem hann er ekki með. Höfundurinn, sem er þekktur undir notendanafninu Essjay hefur löngum sagst vera prófessor í trúarbragðafræðum við einkaháskóla þegar í raun er hann Ryan Jordan, 24 ára háskólanemi frá Kentucky sem hefur notað bækur á borð við „Kaþólska fyrir bjána - Catholicism for Dummies" og byggt greinar sínar á þeim. Honum hefur þegar verið gert að hætta að skrifa á vefritið. Wikipedia er opið alfræðirit sem notendur um allan heim geta sjálfir skrifað inn á.

Ryan Jordan skrifaði greinar og hafði réttindi til að breyta greinum annara og eyða spjallþráðum á vefnum Hann sagðist á prófíl-síðu sinni á vefnum hafa kennt guðfræði bæði á grunn- og framhaldsstigi og í viðtali í blaðinu New Yorker síðasta sumar var honum lýst sem reyndum trúarbragðaprófessor.

Raunverulegt nafn hans kom ekki upp úr dúrnum fyrr en í síðustu viku þegar sama blað fletti ofan af blekkingunum. Þegar upphaflega greinin var birt vissu hvorki blaðamenn New Yorker né stjórnendur Wikipedia hver Essjay raunverulega var.

Jordan hefur nú sagst hafa falið slóð sína og siglt undir fölsku flaggi vegna þess að hann óttaðist að þeir sem hann hafði þurft að banna af vefritinu mundu hefna sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×