Erlent

Auknar líkur á dreng taki getnaður langan tíma

Getty Images

Hollenskir vísindamenn sem hafa ferið yfir gögn meira en 5 þúsund kvenna sem áttu börn á árunum 2001-2003 hafa dregið þá ályktun að því lengri tíma sem það tekur konu að verða ólétt þeim mun meiri líkur eru á að barnið verði drengur.

Af þeim tæplega 500 konum sem voru lengur en ár að reyna að geta barn áttu 58% þeirra drengi á meðan hinar sem urðu ófrískar á styttri tíma áttu í 51% tilfella drengi, sem er innan skekkjumarka.

Vísindamennirnir hafa því dregið þá ályktun fyrir pör sem geta börn með náttúrulegum hætti aukist líkurnar á því að þau eignist dreng um 4% á hverju því ári sem líður áður en þeim tekst að geta barn. Tekið var tillit til breyta á borð við reykingar, áfengisneyslu og óreglulegan tíðahring þegar niðurstöðurnar voru fengnar.

Vísindamennirnir segja þetta geta skýrt hvers vegna fleiri drengir fæðast en stúlkur í heiminum á ári hverju en meðalhlutfallið er 105 drengir á hverjar 100 stúlkur þrátt fyrir að hlutfall X og Y litninga í sæði karla sé jafnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×