Bráðnun heimskautaíssins gæti skapað gríðarleg tækifæri fyrir Íslendinga. Þetta segir utanríkisráðherra en líkur eru á að nýjar siglingaleiðir séu að skapast undan ströndum Íslands.
Alþjóðleg ráðstefna fór fram á Akureyri undir yfirskriftinni Breaking the Ice. Þar ræddu ýmsir sérfræðingar hlýnun í heiminum og meðal annars þær siglingaleiðir sem nú eru að opnast, þar sem norðurheimskautaísinn bráðnar óðum. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra flutti erindi á ráðstefnunni og sagði það skyldu ríkisstjórnar Íslands að huga vel að þessum tækifærum.
Valgerður segir að hægt sé að stytta flutningstíma með vörur um allt að 40% miðað við Kyrrahafssiglingar, verði hægt að sigla á norðlægum slóðum.
Einkum er rætt um þrjá staði á landinu þar sem komið yrði upp risastórri uppskipunarhöfn yrðu þessar siglingar að veruleika.