Körfubolti

Snæfell lagði KR

Snæfell hefur náð lykilstöðu í einvíginu gegn KR eftir dramatískan 63-61 í vesturbænum í dag. Snæfell var yfir lengst af í síðari hálfleik en Brynjar Björnsson hélt KR inni í leiknum með skotsýningu. Það var Justin Shouse sem tryggði gestunum sigurinn með sniðskoti skömmu fyrir leikslok og Snæfell leiðir því 2-1 og getur klárað einvígið á heimavelli í fjórða leiknum.

Justin Shouse, Sigurður Þorvaldsson og Hlynur Bæringsson áttu fínan leik hjá Snæfelli, en segja má að KR-liðið hafi verið meðvitundarlaust í dag fyrir utan frammistöðu Brynjars Björssonar - sem skoraði meira en helming stiga liðsins.

Brynjar skoraði 31 stig fyrir KR í leiknum og hitti úr 6 af 11 þristum sínum og setti niður öll 11 vítaskot sín. Jeremiah Sola skoraði 11 stig og Darri Hilmarsson 6 stig. Lykilmennirnir Fannar Ólafsson og Tyson Patterson skoruðu samanlagt 9 stig og töpuðu 10 boltum.

Hjá Snæfelli voru þeir Sigurður Þorvaldsson (15 stig, 13 fráköst), Justin Shouse (15 stig) og Hlynur Bæringsson (14 stig og 10 fráköst) atkvæðamestir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×