Talið er að í það minnsta 200 manns hafi látið lífið í vargöldinni sem geisað hefur í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu, undanfarna fimm daga. Rotnandi lík eru sögð á götum borgarinnar og skothríð og sprengjudrunur kveða stöðugt við í átökum íslamista og stjórnarhers Sómalíu, studdum af eþíópískum hersveitum. Talið er að meira en hálf milljón borgarbúa hafi flúið á brott undanfarnar vikur og óttast Sameinuðu þjóðirnar að sjúkdómar og hungursneyð bíði þessa hóps.

