Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greip þrjá unglingspilta glóðvolga við að krota á veggi í miðborginni eftir hádegi í gær. Drengirnir eru tólf ára og var gert að þrífa krotið af veggjunum. Forráðamönnum þeirra var tilkynnt um málavexti.
Tíu ára drengur var tekinn við sömu iðju í Breiðholti skömmu síðar og var ekið heim. Hann iðraðist sáran. Foreldrar drengsins voru látnir vita af athæfi hans.
Veggjakrot er skattborgurum dýrt spaug að sögn lögreglu. Milljónum króna er varið í að þrífa veggjakrot af mannvirkjum víða um borgina á hverju ári.