Þriðji leikur Utah Jazz og San Antonio Spurs í úrslitum Vesturdeildarinnar í NBA verður sýndur í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni Sýn klukkan hálf eitt í nótt. Þetta er fyrsti leikur liðanna í Salt Lake City eftir að San Antonio vann fyrstu tvo leikina með afgerandi hætti á heimavelli sínum.
Utah hefur ekki tapað leik á heimavelli sínum í úrslitakeppninni það sem af er og þá er liðið með 8-0 árangur gegn San Antonio á heimavelli í þeim þremur einvígjum sem liðin hafa háð í úrslitakeppni. Þessi sagnfræði á þó varla eftir að hjálpa heimamönnum of mikið í kvöld eftir að þaulreynt lið San Antonio flengdi þá í fyrstu tveimur leikjunum. Vinni San Antonio í kvöld, er liðið komið yfir 3-0 í einvíginu og engu liði hefur tekist að koma til baka og vinna einvígi eftir að hafa lent í þeirri stöðu í sögu NBA.