Körfubolti

Yi fær ekki að spila með Milwaukee

Yi Jianlian er talinn mikið efni, en landar hans vilja ekki sjá að hann fari til Milwaukee og ætla að beita sér fyrir því að hindra för hans þangað
Yi Jianlian er talinn mikið efni, en landar hans vilja ekki sjá að hann fari til Milwaukee og ætla að beita sér fyrir því að hindra för hans þangað NordicPhotos/GettyImages

Kínverski framherjinn Yi Jianlian mun ekki fá að spila með liði Milwaukee Bucks í NBA deildinni ef maka má nýjustu fréttir frá Kína. Jianlian var valinn númer sex af Milwaukee í nýliðavalinu á dögunum en hefur enn ekki skrifað undir samning við félagið vegna þrýstings frá heimalandi sínu. Málið er að verða hið vandræðalegasta og stefnir í að David Stern forseti NBA deildarinnar þurfi nú að skerast í leikinn.

Jianlian fór ekki í æfingabúðir til Milwaukee fyrir nýliðavalið og var það mál manna að leikmaðurinn hefði alls ekki áhuga á að fara til félagsins þó það myndi velja hann. Forráðamenn Bucks létu þessar viðvaranir sem vind um eyru þjóta og notuðu sjötta valréttinn til að krækja í þennan hávaxna og bráðefnilega leikmann.

Það kom svo á daginn að hann hefur enn ekki skrifað undir samning við félagið, en talsmaður Guangdong Tigers, liðs hans í Kína, þvertekur fyrir orðróm sem verið hefur á kreiki um tregðu leikmannsins til að spila með Milwaukee.

"Það er ekkert hæft í þeim sögusögnum að Yi vilji ekki spila í Milwaukee af því þar búi ekki nóg af Kínverjum eða af því það þjóni ekki efnahagslegum tilgangi. Það sem við höfum fyrir okkur í málinu eru hagsmunir hans sjálfs og um leið landsliðs Kína. Við viljum ekki að Yi fari til liðs þar sem hann fær ekkert að spila, því það yrði slæmt fyrir kínverska landsliðið svona rétt fyrir Ólympíuleikana í Kína," sagði yfirmaður Guangdong Tigers í samtali við fjölmiðla í Peking.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×