Landeigendur hafa fengið lögfræðing til að leggja fram kæru og vilja láta reyna á hvort fyrrverandi umhverfisráðherra hafi brotið lög með því að fallast á lagningu Vestfjarðavegar í gegnum Teigsskóg í Þorskafirði. Landeigendur segja að ráðherra hafi gefið grænt ljós á framkvæmdirnar í trássi við niðurstöðu skipulagsstofnunar og umhverfisstofnunar.
Landeigendur fullyrða að vegur á þessum stað valdi óafturkræfum umhverfisspjöllum. Þeir segja að norðurströnd Þorskafjarðar sé á náttúruminjaskrá auk þess sem allar eyjar og fjörur á framkvæmdasvæðinu njóti verndar með lögum.
Hlíðin sem myndar Teigsskóg er víðast vaxin náttúrulegum birkiskógi milli fjalls og fjöru. Að sögn G. Péturs Matthíassonar upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni er verkhönnun í gangi vegna vegarins út Þorskafjörð með þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Útboð vegna framkvæmdanna um Teigsskóg sé fyrirhugað næsta vor.
Landeigendur segja að aðrir valkostir séu til staðar fyrir vestfjarðaveg sem séu jafnvel hagkvæmari en sá sem hefur verið valinn. Þorvaldur Steinsson, fulltrúi landeigenda á Hallsteinsnesi, segir að vegur um Þorskafjörð ógni auk þess fuglalífi og setji arnarvarp í uppnám.