Nicola Zigic, serbneski framherjinn hjá Racing Santander, er vinsæll á meðal liða víðs vegar um Evrópu. Fenerbache og Manchester City höfðu bæði lýst yfir áhuga sínum á kappanum og nú hefur Werder Bremen bæst í hópinn.
Þrátt fyrir að Zigic hafi sagt frá því að draumur hans sé að spila á Englandi er einnig talið að hann sé áhugasamur um að spila fyrir Werder Bremen. Francisco Pernia, forseti Racing Santander, segir að félagið sé í viðræðum við Werder Bremen.
„Framtíð Zigic ræðst á næstu dögum. Racing fer fram á sanngjarnt kaupverð fyrir eignir sínar. Lið sem vilja kaupa leikmenn eins og Zigic vilja fá hann ódýrt, maður þarf að vera með taugar úr stáli til að að standa í þessu," sagði Pernia.