Körfubolti

Ginobili hetja San Antonio

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Manu Ginobili átti stórleik fyrir Spurs í nótt.
Manu Ginobili átti stórleik fyrir Spurs í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Það var nóg um að vera í NBA-deildinn í nótt en átta leikir fóru fram. San Antonio vann góðan sigur á Memphis í æsispennandi leik. Þá átti LeBron James hræðilegan leik þegar lið hans, Cleveland, steinlá á heimavelli fyrir Dallas Mavericks.

Memphis Grizzlies - San Antonio Spurs 101-104

Manu Ginobili átti stórbrotinn leik þegar að San Antonio vann annan leikinn í röð á jafn mörgum dögum í nótt. Hann var aðalmaðurinn á bak við nauman sigur San Antonio á Memphis í nótt en hann skoraði mikilvægustu körfu leiksins þegar 32 sekúndur voru til leiksloka. Alls var hann með þrjátíu stig í leiknum þrátt fyrir að hann byrjaði á bekknum.

Rudy Gay reyndi að jafna metin á lokasekúndu leiksins en skot hans missti marks.

Hvorugt lið náði aldrei meira en sjö stiga forystu í leiknum en þegar tæpar tvær mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 95-95. Þá skoraði Ginobili og kom San Antonio í tveggja stiga forystu þegar 32 sekúndur voru til leiksloka.

Eftir það skoraði hann úr sjö af átta skotum sínum af vítalínunni sem dugði til að halda í forystu San Antonio á lokasekúndum leiksins.

Tim Duncan og Tony Parker skoruðu sautján stig hver en Duncan tók níu fráköst. Matt Bonner náði sér í ellefu stig.

Pau Gasol var stigahæstur hjá Memphis með 22 stig en Damon Stoudamire kom næstu rmeð átján, Gay með sextán.

„Munurinn í þessum leik lá í sigurvilja Manny. Hann fór áfram á sigurviljanum einum," sagði Greg Popovich, stjóri Spurs. „Hann tók af skarið og nýtti svo vítaköstin sín. Hann bjargaði deginum fyrir okkur."

Þrátt fyrir tapið komst Memphis vel frá leiknum og greinilegt að með þessu áframhaldi verður liðið sterkt í vetur.

Kevin Durant átti þokkalegan leik fyrir Seattle í nótt.Nordic Photos / Getty Images

Denver Nuggets - Seattle SuperSonics 120-103

Beðið var með þó nokkurri eftirvæntingu eftir fyrsta leik Kevin Durant í NBA-deildinni en Seattle átti annan valrétt í nýliðavalinu og valdi Durant. Hann skoraði að vísu átján stig í leiknum í nótt en hitti úr aðeins sjö skotum af 22.

Carmelo Anthony, Allen Iverson og Marcus Camby voru hins vegar allir í fínu formi þegar Denver vann sigur á Seattle í nótt. Anthony skoraði 32 stig, Iverson 25 og Camby tók fimmtán fráköst.

Linas Kleiza átti einnig góðan leik, skoraði átján stig og hitti úr fimm þriggja stiga skotum.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af en í þriðja leikhluta var Seattle með forystu, 79-78, þegar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þá tók Denver hins vegar til sinna mála og skoruðu næst 28 stig gegn ellefu frá Seattle og gerðu þar með út um leikinn.

Hjá Seattle var Damien Wilkens stigahæstur með 21 stig en Delonte West kom næstur með nítján.

New Jersey Nets - Chicago Bulls 112-103

Framlengja þurfti leik New Jersey og Chicago í nótt en það var Antoine Wright sem var hetja Nets í nótt sem vann á endanum, 112-103. Hann skoraði fjórtán af sínu 21 stigi í fjórða leikhluta og framlengingu leiksins.

Richard Jefferson var einnig atkvæðamikill en hann skoraði 29 stig í leiknum og tók tíu fráköst. Vince Carter skoraði 24 stig Jason Kidd var einnig drjúgur. Hann skoraði sjö stig í leiknum og gaf þrettán stoðsendingar.

Þetta var þrettándi heimavallasigur New Jersey á Chicago í röð.

Hjá Chicago var Ben Gordon stigahæstur með 27 stig en Luol Deng kom næstur með 22 stig en hann tók einnig ellefu fráköst.

Chicago var lengi í gang en í síðari hálfleik tók Ben Gordon til sinna mála og Chicago jafnaði metin eftir að hafa verið fimmtán stigum undir.

Þetta var mikill persónulegur sigur fyrir Wright því í síðustu viku fékk að vita að Nets myndi ekki framlengja samning hans við félagið sem rennur út eftir núverandi tímabil.

Leikmenn Bucks áttu í tómum vandræðum með Rashard Lewis.Nordic Photos / Getty Images

Milwaukee Bucks - Orlando Magic 83-102

Rashard Lewis olli ekki vonbrigðum í sínum fyrsta leik með Orlando eftir langa dvöl hjá Seattle. Hann skoraði 26 stig í leiknum, hitti úr níu af þrettán skotum sínum er Orlando vann nítján stiga sigur á Milwaukee.

Yi Jianlian lék sinn fyrsta leik í NBA-deildinni í nótt og komst ágætlega frá sínu, skoraði níu stig á 25 mínútum og hitti úr fjórum af fimm skotum sínum utan af velli. Hann var sjötti í nýliðavalinu í vor og verður væntanlega betri eftir því sem á líður.

Hann lenti í villuvandræðum og sagði eftir leik að þegar hann nær betri stjórn á því, mun hann standa sig betur.

Orlando fór á kostum í löngu skotunum og hitti betur úr þriggja stiga skotum en tveggja stiga.

Hedo Turkoglu átti einnig afar góðan leik en hann skoraði 24 stig og hitti úr þremur af fimm þriggja stiga tilraunum sínum.

Milwaukee var með forystu, 56-55, þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta en þá tóku Turkoglu og Lewis til sinna mála og voru aðalmennirnir í 28-8 spretti Orlando.

New Orleans Hornets - Sacramento Kings 104-90

New Orleans fagnaði því í nótt að liðið væri fyrir fullt og allt komið aftur heim til borgarinnar með því að sigra Sacramento, 104-90.

Chris Paul átti ríkan þátt í því en hann skoraði 22 stig í leiknum og gaf tólf stoðsendingar. Peja Stojakovic átti einnig góðan leik en hann skoraði nítján stig. Hann náði aðeins þrettán leikjum á síðasta tímabili vegna uppskurðar á baki.

Ron Artest lék ekki með Sacramento í nótt þar sem hann tekur nú út sjö leikja bann eftir að hann var kærður fyrir heimilisofbeldi fyrr á árinu.

Mike Bibby er einnig frá, vegna meiðsla, og því lið Sacramento ekki upp á marga fiska.

Kevin Martin var stigahæstur hjá Kings með 26 stig og John Salomons kom næstur með 22.

LeBron James gat ekkert gegn Dallas.Nordic Photos / Getty Images

Cleveland Cavaliers - Dallas Mavericks 74-92

Þetta virðist ætla að verða erfitt tímabil hjá Cleveland sem komst alla leið í úrslitin gegn San Antonio í vor. Undirbúningstímabilið hefur gengið illa og helstu stjörnu deildarinnar, LeBron James, líst ekkert á blikuna.

Jason Terry var stigahæsti maður Dallas í nótt með 24 stig og Dirk Nowitzky var með fimmtán.

Dallas féll óvænt úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í fyrra en sýndu að þeir hafa jafnað sig á því ófalli og ætla sér stóra hluti í vetur.

Leikmenn Dallas héldu LeBron algjörlega niðri en hann skoraði tíu stig í leiknum og skoraði aðeins úr tveimur skotum af tíu utan af velli. Zydrunas Ilgauskas var stigahæstur hjá Cleveland með sautján stig og tók þar að auki átján fráköst.

Cleveland átti aldrei möguleika í leiknum. Dallas var með fjórtán stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, tuttugu stiga forystu í hálfleik og komust mest í 25 stiga forystu áður en liðið gaf eftir á lokasprettinum.

Jamaal Tinsley átt stórleik fyrir Indiana.Nordic Photos / Getty Images

Indiana Pacers - Washington Wizards 119-110

Jamaal Tinsley var hetja Indiana í nótt er hann skoraði sextán af sínum 20 stigum fyrir lið sitt í fjórða leikhluta og framlengingunni. Svo fór að Indiana vann níu stiga sigur og Jim O'Brien, þjálfari Indiana, fagnaði sigri í sínum fyrsta leik með liðið.

Tinsley tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar naut sín undir stjórn nýs þjálfara en hann hefur áður sagt að hann hafi verið í fjötrum í mörg ár í leikskipulagi Rick Carlisle.

Gilbert Arenas var stigahæstur hjá Washington með 34 stig og tók eftir því að Indiana væri gjörbreytt lið.

„Það þarf bara að sleppa þessum mönnum lausum," sagði hann. „Allt í einu líta þeir ekki út eins og vélmenni inn á vellinum. Þetta er gjörbreytt lið."

Sigurinn er einkar sætur fyrir þær sakir að Jermaine O'Neal gat ekki spilað með Indiana vegna hnémeiðsla.

Indiana var með fimm stiga forskot þegar rúm mínúta var eftir að venjulegum leiktíma. Antawn Jamison skoraði þá úr þriggja stiga skoti og Indiana misnotaði næstu sókn. Caron Butler fékk dæmda villu í kjölfarið en nýtti aðeins eitt vítaskot. Staðan var 101-100 þegar níu sekúndur voru til leiksloka.

Tinsley hitti úr tveimur vítaskotum en í síðustu sókn leiksins jafnaði Arenas leikinn með þriggja stiga körfu.

Það kom þó ekki að sök og Indiana hélt uppteknum hætti í framlengingunni.

Andre Miller reynir hér að komast fram hjá Jason Kapono, leikmanni Toronto.Nordic Photos / Getty Images

Toronto Raptors - Philadelphia 76ers 106-97

TJ Ford og Jose Calderon gáfu tóninn fyrir tímabilið hjá Toronto með magnaðri frammistöðu í sigri liðsins á Philadelphia í nótt.

Ford skoraði fjórtán stig og gaf tólf stoðsendingar. Calderon var með þrettán stig og fjórar stoðsendingar. Báðir töpuðu boltanum aðeins einu sinni.

Andrea Bargnani skoraði 20 stig fyrir Toronto, Chris Bosh sextán og Anthony Parker þrettán.

Hjá Philadelphia var Andre Iguodala með 23 stig og Kyle Korver með 20.

Toronto var með þægilega forystu í þriðja leikhluta en gáfu eftir í þeim fjórða þannig að Philadelphia náði að jafna muninn í eitt stig, 90-89, þegar tæpar fimm mínútur voru til leiksloka.

Þá vöknuðu leikmenn Toronto til lífsins og kláruðu leikinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×