Körfubolti

Stoudemire ætlar að spila í kvöld

Amare Stoudemire styrkir lið Phoenix til muna
Amare Stoudemire styrkir lið Phoenix til muna AFP

Leikur Miami Heat og Phoenix Suns verður sýndur beint á Sýn klukkan hálf eitt í nótt. Miðherjinn Amare Stoudemire snýr aftur með liði Phoenix eftir meiðsli og Miami reynir að afstýra tapi í 18. leiknum í röð í öllum keppnum.

Miami hefur byrjað tímabilið skelfilega og hefur tapað fyrstu fjórum leikjum sínum. Liðið er enn án hins magnaða Dwyane Wade sem er að jafna sig eftir uppskurði í sumar og þá er miðherjinn Shaquille O´Neal enn langt frá sínu besta.

Miami hefur tapað 17 leikjum í röð sem er taphrina sem nær aftur í tvo síðustu leikina í deildarkeppninni síðasta vor. Þá tapaði liðið öllum fjórum leikjunum í úrslitakeppninni gegn Chicago, öllum sjö á undirbúningstímabilinu og svo fjórum fyrstu í deildarkeppninni nú. 

Phoenix hefur ekki byrjað leiktíðina mjög glæsilega heldur og tapað fyrir Atlanta í síðasta leik. Amare Stoudemire, sem var valinn í fimm manna úrvalslið deildarinnar í vor, hefur misst af þremur af fyrstu fimm leikjum liðsins í upphafi leiktíðar vegna meiðsla.

Phoenix hefur unnið þrjá af fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni en þó liðið sé dálítið ryðgað í upphafi móts er enginn að örvænta þar á bæ. Liðið tapaði fimm af fyrstu sex leikjum sínum í upphafi leiktíðar í fyrra en vann samt 61 leik í deildarkeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×