Erlent

Flensusprautan virkar ekki sem skyldi

MYND/Getty Images

Flensa gæti orðið tugum þúsunda Breta að bana í vetur og bólusetning gerir lítið til að forða því. Þetta segir Graeme Laver læknir sem þróaði flensusprautuna og telur að sérstaklega slæmur flensufaraldur sé í uppsiglingu.

Þrátt fyrir að 15 milljón Breta fái flensusprautu á ári hverju segir hann það ekki tryggja vernd gegn flensunni. „Ég hef aldrei verið ánægður með árangur lyfsins," sagði hinn ástralski Laver við breska blaðið Times, en hann þróaði lyfið ásamt öðrum fyrir meira en 40 árum.

Hann telur lyf sem vinni á flensu eftir að menn hafi veikst þurfi að vera fáanleg í apótekum án lyfseðils. Hann segir þó að flensulyfið sé betra en ekkert og hann vilji ekki ráðleggja fólki að taka það ekki. Besta leiðin til að vernda heilsu almennings sé að gera lyf eins og Tamiflu og Relenza aðgengileg almenningi, en lyfin eru nú lyfseðilsskyld.

Ef þau eru tekin stuttu eftir að einkenna fer að gæta er líklegra að lyfin vinni á flensunni heldur en eftir að sjúklingurinn hefur þurft að eyða tíma í að hitta lækni. Hann telur að hundruð lífa gætu bjargast ef lyfin væru ekki lyfseðilsskyld.

Flensa kostar 12 þúsund manns lífið á hverju ári í Bretlandi, en í alvarlegri faröldrum fer talan upp í 20 þúsund.

Laver sem er fyrrverandi prófessor við háskóla í Canberra telur að ef flensufaraldur vetrarins í Bretlandi verði jafn slæmur og hann var í Ástralíu eigi Bretar ekki von á góðu. Þrisvar sinnum fleiri Ástralar veiktust af flensu á síðasta tímabili, en tímabilinu á undan. Í þeim hópi voru jafnvel hraust ungmenni sem veiktust illa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×