Bakvörðurinn Manu Ginobili hefur verið valinn í 12 manna landsliðshóp Argentínumanna fyrir Ólympíuleikana í Peking. Þessi tíðindi vekja væntanlega litla hrifningu forráðamanna San Antonio Spurs í NBA deildinni, en Ginobili hefur átt við meiðsli að stríða.
Samkvæmt fjölmiðlum í San Antonio hafa þeir Ginobili og Gregg Popovich, þjálfari Spurs, verið í daglegu sambandi undanfarið þar sem ökklameiðsli leikmannsins hafa verið rædd ítarlega.
Ginobili segir ökklann í fínu standi og segist hlakka til að leika fyrir hönd þjóðar sinnar.
Popovich lýsti því yfir í viðtali fyrir mánuði síðan að Ginobili ætti alls ekki að spila með landsliðinu á Ólympíuleikunum, en hann var aðeins skugginn af sjálfum sér í úrslitakeppni NBA í vor vegna ökklameiðslanna.