Erlent

Skrímslið frá Amstetten: „Ég er ekki skrímsli“

Josef Fritzl.
Josef Fritzl.

Josef Fritzl sem lokaði Elisabeth dóttur sína í dýflissu í 24 ár og eignaðist með henni sjö börn segist ekki vera skrímsli. Fritzl hefur verið í gæsluvarðhaldi allt frá því Elisabeth dóttir hans fannst í kjallaranum ásamt þremur börnum sem aldrei höfðu litið dagsljósið.

Austurríska götublaðið Österreich hefur eftir lögfræðingi Fritzl að hann segist ekki vera skrímsli. Lögfræðingurinn segir einnig að Fritzl haldi því fram að hann hafi bjargað lífi dóttur sinnar en að hann hefði getað myrt hana og öll börnin.

„Ég hefði getað drepið þau öll. Það hefði hvorki fundist tangur né tetur af þeim," hafði lögfræðingurinn eftir Fritzl. Upp komst um athæfi mannsins þegar Kerstin, 19 ára dóttir hans veiktist alvarlega. Henni er nú haldið sofandi á sjúkrahúsi. „Ef það væri ekki fyrir mig væri Kerstin ekki á lífi í dag," sagði Fritzl. „Það var ég sem sá til þess að hún kæmist á spítala."

Fritzl dvelur nú í fangaklefa þar sem hann hefur aðgang að sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum, ólíkt öðrum föngum. Honum er haldið frá öðrum föngum af ótta við að þeir grípi til ofbeldis gagnvart honum.

Elisabeth dvelur nú ásamt börnum sínum á spítala þar sem þau fá nauðsynlega ummönnun. Ljósmyndarar hvaðanæva að úr heiminum hafa safnast fyrir utan spítalann og freista þess að ná fyrstu myndunum af þessari frægustu fjölskyldu Austurríkis og þótt víðar væri leitað. Lögregla hefur nú þegar handtekið 13 ljósmyndara fyrir að ganga of hart fram í að ná myndunum dýrmætu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×