Körfubolti

Sonics formlega flutt til Oklahoma

NordcPhotos/GettyImages

Eftir 41 ár í NBA á Seattle-borg ekki lengur lið í deildinni. Í gærkvöld náðist samkomulag um að flytja liðið frá borginni til Oklahoma eftir langar og erfiðar deilur.

Eigandi Supersonics, Oklahoma-búinn Clay Bennett, samþykkti í gær að greiða Seattle-borg 75 milljónir dollara eða tæpa 6 milljarða króna til að losa félagið út úr samningum í Seattle fyrir næstu leiktíð.

Ein helst ástæða þess að félagið flutti frá Seattle var sú að ekki náðist samkomulag um endurbætur á Key Arena, heimahöll Supersonics.

David Stern, forseti deildarinnar, hefur gefið það út að gera þurfi endurbætur á höllinni fyrir um 300 milljónir dollara svo hún sé boðleg NBA höll á nútímavísu. Seattle hefur fengið frest út næsta ár til að gera þessar nauðsynlegu endurbætur ef borgin vill vera inni í myndinni með að fá NBA lið á næstu fimm árum þar á eftir.

Fari svo að Seattle fái NBA lið á næstu árum, sem verður að teljast afar ólíklegt, hafa verið gerðir samningar um að liðið fái nafn sitt, merki og búninga á ný frá Oklahoma-félaginu.

Þó langri og hatrammri deilu um framtíð félagsins virðist nú lokið, hafa Seattle-menn ekki sagt sitt síðasta og hafa þeir farið í mál við Bennett. Fyrrum eigandi Supersonics vill þannig meina að Bennett hafi brotið samkomulag sem hann gerði þegar hann keypti liðið á sínum tíma, þegar hann lofaði að gera allt sem í hans valdi stæði til að halda félaginu í borginni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×