Erlent

Fjórði hver Dani trúir á drauga

Ný könnun leiðir í ljós að rúmlega fjórði hver Dani trúir á drauga og 15% þeirra segjast hafa séð draug einhvern tímann á æfinni

Það er fríblaðið metroXpress sem greinir frá þessu í dag. Trúarsérfræðingnum Tim Jensen við Syddansk háskólann finnst það athyglisvert að 27% Dana trúi á drauga þegar haft er í huga að almanakið segi að árið sé 2008. Kjeld Holm biskup í Árósum segir hinsvegar að draugar og trú hafi ekkert með hvort annað að gera og kallar niðurstöðuna rugl og heilaspuna.

Tim Jensen segir í samtali við metroXpress að fólki trúi á drauga þar sem það hafi heyrt draugasögur. Og ef það upplifi eitthvað í líkingu við það sem fram kemur í þessum sögum hugsi það með sér að um draug hafi verið að ræða. Hann telur líka að samband sé á milli draugatrúar og þess sem við höldum að gerist eftir dauðann.

Það vekur líka athygli Tim að 15% Dana segjast hafa upplifað draugagang samkvæmt könnuninni. Hann segir það vera vegna þess að draugasögur séu skemmtilegar og spennandi og því vilji fólk upplifa eitthvað svipað.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×