Kraftframherjinn Emeka Okafor hefur undirritað nýjan sex ára samning við Charlotte Bobcats í NBA deildinni og færir samningurinn honum um 72 milljónir dollara í laun, eða tæpa 5,8 milljarða.
Okafor hefur spilað fjögur ár í deildinni og hefur verið með tvöfalda tvennu að meðaltali í leik öll árin. Hann er 25 ára gamall og valinn númer tvö af Charlotte í nýliðavalinu árið 2004. Hann var fyrsti nýliðinn í sögu þessa unga félags í NBA deildinni.
Okafor lék alla 82 leikina síðasta vetur þar sem hann skoraði 13,7 stig, hirti 10,7 fráköst og varði 1,7 skot að meðaltali í leik. Hann mun spila undir leiðsögn hins gamalreynda Larry Brown hjá Bobcats næsta vetur, en þar er það sjálfur Michael Jordan sem situr á forsetastóli.