Leikur FH og Breiðabliks í Landsbankadeild karla verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti í dag klukkan 16.30.
Útsendingin hefst stundarfjórðungi fyrr en þetta gæti verið leikurinn sem ræður endanlega úrslitum Íslandsmótsins. FH dugir ekkert annað en sigur til að koma í veg fyrir að Keflavík verði Íslandsmeistari í kvöld.
Þetta er frestaður leikur úr átjándu umferð en Keflavík er með fimm stiga forystu á FH þegar aðeins lokaumferðin er eftir. Það þýðir að FH verður að minnka forystuna í tvö stig fyrir lokaumferðina til að eiga enn möguleika á titlinum.
Klukkan 18.40 verður leikur Newcastle og Tottenham sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sporti en leikurinn er liður í þriðju umferð ensku deildabikarkeppninnar.
Klukkan 18.00 hefst leikur Barcelona og Real Betis í spænsku úrvalsdeildinni og verður hann sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3. Hann verður svo endursýndur að loknum leik Newcastle og Tottenham á Stöð 2 Sporti eða klukkan 20.40.
