Körfubolti

NBA í nótt: Portland þurfti tvær framlengingar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jarret Jack (1) og Martell Webster fagna sigrinum í nótt.
Jarret Jack (1) og Martell Webster fagna sigrinum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Portland Trail Blazers vann sinn fimmtánda sigur í síðustu sextán leikjum sínum þegar liðið vann Chicago í nótt í tvíframlengdum leik, 115-109.

Portland var reyndar fjórtán stigum undir í þriðja leikhluta en náði aftur forystunni í upphafi þess fjórða. Ben Gordon skoraði síðustu körfu venjulegs leiktíma og jafnaði þar með metin fyrir Chicago, 88-88.

Staðan var jöfn eftir fyrri framlenginguna, 102-102, en það var þriggja stiga leikflétta Jarrett Jack undir lok síðari framlengingarinnar sem tryggði Portland sigurinn.

Brandon Roy var stigahæstur hjá Portland með 25 stig og ellefu stoðsendingar en Travis Outlaw var með 21 stig í leiknum.

Gordon var með flest stig hjá Chicago með 32 stig en Joe Smith var með 31 stig og ellefu fráköst. Luol Deng gat ekkert spilað í síðari hálfleik vegna meiðsla og skoraði aðeins tvö stig í leiknum.

Phoenix Suns vann góðan sigur á Seattle, 104-96, eftir að hafa verið 20 stigum undir í fyrsta leikhluta. Amare Stoudemire var með 34 stig og ellefu fráköst.

Þá vann Denver Nuggets dýrmætan heimasigur á San Antonio, 80-77. Allen Iverson var með 29 stig fyrir Denver en hjá San Antonio voru Tony Parker og Tim Duncan stigahæstir með 20 stig. Duncan var þar að auki með fjórtán fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×