Erlent

Marsleiðangri Fönix lokið - vetur á Mars

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/NASA

Könnunarleiðangri geimfarsins Fönix sem lenti á Mars í maílok er lokið vegna veðurs.

Sandstormur á Mars hefur gert það að verkum að skynfæri könnunarfarsins Fönix sjá ekki glóru ef svo má að orði komast. Auk þess hafa fjarskiptin rofnað og hafa menn hjá NASA nú ekki heyrt bofs frá þessum augasteini sínum síðan 2. nóvember. Leiðangrinum hefur því opinberlega verið hætt.

Leiðangursstjórinn Barry Goldstein segir þetta vonbrigði en enginn megi sköpum renna og hann og vinnufélagarnir verði því að bíta í það súra epli að fá ekki að sinni óyggjandi sannanir um hvort vatn, ís og fleira sé að finna á plánetunni rauðu.

Það var ljóst frá upphafi að geimfar á borð við Fönix þyldi aldrei veturinn á Mars sem nú er um það bil að skella á líkt og hér. Eitthvað er þó talað um að ræsa megi Fönix að nýju þegar vorar á Mars en sú áætlun er þó ekkert sem menn vilja hengja hatt sinn á að svo stöddu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×