Fjórir leikir eru á dagskrá í kvöld og í nótt í úrslitakeppni NBA deildarinnar og verður stórleikur Phoenix og San Antonio sýndur beint á NBA TV sjónvarpsrásinni klukkan 19:30.
Phoenix er með bakið upp að vegg í þessum leik enda undir 3-0 í einvíginu. San Antonio fór hamförum í þriðja leiknum í Phoenix og leiddi frá upphafi til enda - þar sem Tony Parker átti sinn besta leik á ferlinum í liði meistaranna og skoraði 41 stig og gaf 12 stoðsendingar.
Cleveland sækir Washington heim um klukkan 17 þar sem liðið hefur 2-1 forystu eftir tap í síðasta leik. Philadelphia hefur mjög óvænt 2-1 forystu gegn Detroit og eigast liðin við fjórða sinni í kvöld klukkan 23 í Philadelphia. Þá mætast Dallas og New Orleans fjórða sinni í Dallas í nótt þar sem New Orleans hefur 2-1 forystu, en Dallas vann góðan sigur í síðasta leik.