Fyrsta tvíburahalastjarnan sem ber fyrir augu jarðneskra vísindamanna kom í ljós þegar þeir fóru að skoða myndir sem teknar voru snemma á árinu.
Hún heitir 8P/Tuttle sem sennilega segir engum neitt nema fámennum hópum stjörnuglópa um víða veröld. Það þótti hins vegar merkilegra þegar myndir sem teknar voru gegnum stjörnusjónauka í Puerto Rico snemma á árinu sýndu tvö stykki sem tengjast með mjóu bandi eða efnismassa.
Vísindamenn við Arecibo-stjörnurannsóknarstöðina eru engan veginn vissir um hvernig slíkt fyrirbæri hefur orðið til. Ein kenningin er sú að stjarnan hafi splundrast á ferðalagi sínu um órageim en hiti sólar brætt tvö stykkjanna saman á ný þegar halastjarnan fór nærri sólinni. Annars vita menn minnst um þetta.