Handbolti

Einar: Allt annað að sjá til liðsins í seinni leiknum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Einar Jónsson.
Einar Jónsson. Mynd/Anton

Einar Jónsson, þjálfari kvennaliðs Fram í handbolta, var ánægður eftir sannfærandi 30-20 sigur liðs síns gegn tyrkneska liðinu Anadolu University í seinni leik liðanna í 32-liða úrslitum Challenge Cup í dag.

Fram vann báða leiki liðanna og einvígið samanlagt 57-50 og komst því örugglega áfram í 16-liða úrslit keppninnar.

„Það var allt annað að sjá til liðsins í seinni leiknum. Við tókum bara á því og uppskárum samkvæmt því. Núna verðum við bara að bíða og sjá hvaða liði við mætum í 16-liða úrslitunum. Mér sýnist í fljótu bragði vera möguleiki á að við förum til Úkraínu eða Serbíu en Holland og Þýskaland koma einnig til greina. Við tæklum það bara þegar þar að kemur," sagði Einar í samtali við Vísi.

Einar útilokaði ekki að Fram myndi selja heimaleik sinn aftur líkt og liðið gerði gegn Anadolu University og var ánægður með ferðalagið til Tyrklands.

„Mér finnst ekki ólíklegt að við komum til með að selja heimaleikinn okkar aftur í 16-liða úrslitunum. Þessi ferð til Tyrklands gekk bara mjög vel og ekkert út á aðstöðu eða annað að setja.

Dómararnir voru reyndar mjög slakir í fyrri leiknum en eftir að ég lét eftirlitsmann leiksins heyra það þá fengum við mun betri dómgæslu í seinni leiknum," sagði Einar ánægður en nánara viðtal við þjálfarann birtist í Fréttablaðinu á morgun.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×