Fótbolti

Real Madrid vann borgarslaginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gonzalo Higuain fagnar marki sínu í kvöld.
Gonzalo Higuain fagnar marki sínu í kvöld. Nordic Photos / AFP
Real Madrid vann 3-2 sigur á Atletico Madrid í dramatískum leik í spænsku höfuðborginni í kvöld.

Kaka kom Real Madrid yfir strax á fimmtu mínútu leiksins og Marcelo jók forskotið með marki á 25. mínútu.

Gonzalo Higuain bætti svo því þriðja við á 64. mínútu og var fátt sem benti til þess að Atletico myndi fá mikið úr leiknum.

En aðeins tveimur mínútum síðar breyttist allt. Sergio Ramos, leikmaður Real, fékk að líta rauða spjaldið fyrir brot á Sergio Agüero á vítateigslínunni. Ekkert kom þó úr aukaspyrnunni.

En Diego Forlan náði að minnka muninn fyrir heimamenn á 79. mínútu og Agüero skoraði annað mark Atletico aðeins tveimur mínútum síðar.

Atletico komst nokkrum sinnum nálægt því að jafna metin en það var þó Real sem fagnaði sigri í lokin og minnkaði forskot Barcelona aftur í eitt stig á toppi deildarinnar.

Manuel Pellegrini, þjálfari Real, virtist fá aðskotahlut í andlit sitt á meðan leiknum stóð en hann hlaut þó engan skaða af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×